Horni - 781 Höfn í Hornafirði+354 8684042hornhestar@gmail.com
  • de
  • en
  • is

OmarIngi

 

Unga fólkið í hringiðuna

Það er draumur flestra bænda að börnin taki við búinu, yrki jörðina og haldi áfram að byggja upp og bæta fyrir komandi kynslóðir. Oftar en ekki rætist sá draumur ekki. Það er margt sem tosar í unga fólkið, ekki síst unga hestamenn- og konur.

Ómar Ingi Ómarsson er 28 ára tamningamaður og reiðkennari. Foreldrar hans eiga eina mestu kostajörð landsins, Horn í Hornafirði, og reka þar meðal annars hrossaræktarbú. Jörðin er 7500 hektarar með fjölbreyttu landslagi: Fjalllendi, fjörum, vallendi, holtum, klettum, sandi og grjóti. Frábær uppeldisstöð. Hross sem ganga á Horni eru með sérlega góða hófa. Á búinu  er mjög góð aðstaða til tamninga og þjálfunar, nýlegt hesthús, reiðskáli og frábærar útreiðaleiðir. Hross í eigu Hornsmanna og úr þeirra ræktun hafa náð í fremstu röð, bæði á fjórðungs- og Landsmótum. Af hryssum sem eru í ræktun má nefna Þulu frá Hólum (8,46), sem stóð efst í elsta flokki hryssna á LM2000, Flautu frá Miðsitju (8,39), Grímu frá Kjarnholtum (7,90), Glettu frá Þóroddsstöðum (8,02), Skör frá Eyrarbakka (8,03), efst í A flokki á FM1999 á  Austurlandi, og Rikku frá Fornustekkum og hryssur út af henni: Möl (8,01) klárhryssa með fjórar níur, Von (8,19) og Grús (8,16) frá Horni. Fimm fyrstu verðlauna stóðhestar eru komnir frá búinu: Flygill (8,37), Forni (8,32), Ómur (8,08), Tindur (8,06) og Dalvar (8,15).

 

Mekka hestamennskunnar

Ómar Ingi smitaðist af hestamennsku foreldra sinna sem krakki og fékk snemma tamninga- og ræktunarbakteríuna, sem oftast fylgir fólki alla ævi. Hann hefur hefur haft atvinnu af tamningum og hrossabúskap nánast alla sína starfsævi, bæði heima og í útlöndum. Hann lauk tamninga- og reiðkennaraprófi frá Hólaskóla 2011 og hugðist starfa á óðali feðranna austur í Hornafirði. En það er lítið við að vera í fámenninu, eins og segir í fleygri setningu, og í vetur hefur Ómar Ingi rekið tamningastöð í Biskupstungunum, nánar tilekið á Torfastöðum.

„Allir staðir hafa sína kosti og galla. Ég ákvað að flytja mig um set í vetur og komast nær hringiðunni,“ segir Ómar Ingi og brosir góðlátlega að tali blaðamanns um einangrun hinna afskekktari byggða. „Það er mjög gott að vera hér á Torfastöðum, fín aðstaða og skemmtilegt umhverfi. Ég er aðallega með hross frá Horni. Það er rétt, maður finnur vel fyrir því hvað hestamennskan hefur breyst mikið á undanförnum árum. Mekka hestamennskunnar er höfuðborgarsvæðið og Suðurland. Það er ekki sami þróttur í hestamennsku úti á landi og var. Það er einfaldlega staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Ungt fólk sem ætlar sér að hafa atvinnu af hrossabúskap, og halda sér við sem reiðmenn og reiðkennararar, sækir einfaldlega þangað þar sem mest er um að vera.“

 

Fljótir að missa taktinn

„Það segir sig alveg sjálft að kaupendur aka ekki 400 til 600 kílómetra út á land ef þeir geta fundið rétta hrossið í Reykjavík, hvort sem það eru útlendingar eða höfuðborgarbúar. Nema um persónuleg sambönd sé að ræða, sem menn hafa komið sér upp. En þau duga ekki alltaf til að reka heilt hrossabú, og þá verður maður einfaldlega að flytja vöruna nær kaupandum. Það hefur líka sýnt sig að tamningamenn og reiðmenn geta auðveldlega misst taktinn ef þeir vinna lengi einir og hafa enga til að bera sig saman við. Hér á Suðurlandi eru opin mót nánast um hverja helgi átta mánuði á ári og stutt á milli tamningastöðva. Ég hef ekki verið nógu duglegur í að taka þátt í sýningum og keppni, en ætla mér að bæta úr því. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir atvinnumenn og reiðkennara að halda því við eins lengi og kostur er.“

 

Útlöndin freista

Ómar Ingi vann í þrjú og hálft ár við tamningar og hestamennsku í útlöndum, einkum í Þýskalandi. Hann segir að mun auðveldara sé að hafa góða afkomu í faginu þar og það sé óneitanlega freistandi.

„Mér líkaði mjög vel í Þýskalandi. Var meðal annars á Vindhólum hjá Einari Hermannssyni og á Störtal, en þaðan eru mörg af bestu kynbótahrossunum í Þýskalandi. Það er töluvert annað viðhorf til hestsins hjá þjóðverjum en hér heima. Hver hestur er eigandum miklu meira virði. Í fyrsta lagi peningalega, vegna þess að það er miklu dýrara að halda hross á meginlandinu. Og ég held líka tilfinningalega. Alla vega svona almennt. Fólk leggur yfirleitt allt í þetta áhugamál og er í mjög nánu sambandi við hrossin. Ég var fljótur að læra tungumálið og komst í gott samband við hestafólk þarna úti. Við höfum selt flest okkar hross til Þýskalands. Ég gæti vel hugsað mér að flytja þangað og starfa þar.“

Þess má geta að eldri bróðir Ómars Inga, Gísli, hefur búið í Svíþjóð í mörg ár og er giftur sænskri hestakonu, Lottu Sundqvist. Þau eiga þar og reka hrossabú, fá 12-14 folöld á ári, temja hross og rækta hunda.

 

Aukin fagmennska í tamningum

„Þjóðverjar eru yfirleitt ánægðir með hross sem þeir kaupa frá Íslandi,“ segir Ómar Ingi. „Sjálfur hef ég aldrei lent í því að fá óánægðan kaupanda. En það kemur fyrir að maður heyrir um tilfelli þar sem fólk hefur keypt hest eftir umsögn og myndum á Netinu og fær síðan allt öðruvísi hross en það bjóst við. Vandamálahross! Ég veit líka um dæmi þar sem fólk hefur fengið miklu betra hross en það bjóst við. En tamningar og þjálfun hrossa er komin á það stig hér á landi að í flestum tilfellum eru hross vel tamin og ekki boðin til sölu annars. Annað eru undantekningar. Við höfum náð árangri í að auka fagmennsku í tamningum og þar á Hólaskóli stóran þátt.“

 

Eignaðist ný verkfæri

„Ég er mjög ánægður með námið á Hólum. Sérstaklega frumtamningaþáttinn á öðru ári. Ég lærði svo margt nýtt, sem ég hafði enga hugmynd um áður að væri til; ég eignaðist mörg ný verkfæri sem hafa reynst mér vel síðan. Það er engin spurning að námið bætti mig sem hestamann og víkkaði sjóndeildarhringinn. Sérstaklega hvað varðar sálarlíf og hegðun hestsins og hvernig hægt er að gera flest í tamningunni á auðveldari hátt ef maður framkvæmir hana á forsendum hestsins, en ekki mannsins. Kennararnir voru líka einstaklega góðir, til dæmis Mette Mannseth, Artemisa Bertus og Ísólfur Líndal Þórisson. Frábært hestafólk.“

 

Komin út fyrir rammann

Ómar Ingi hefur gott orð á sér sem tamningamaður og þjálfari. Hann hefur hins vegar ekki lagt kapp á keppni og sýningar fram að þessu, þótt nú standi til að bæta úr því. Hann telur þó að ýmislegt mætti breytast til hins betra, einkum hvað kynbótasýningar varðar.

„Ég hefði viljað sjá fleiri knapa sýna kynbótahross. Það er eitthvað skakkt við það að svo fáir knapar skuli sýna jafnstóran hluta hrossanna og raun ber vitni. Ég held að dómararnir eigi nokkra sök á því. Það er beðið um svo mikil afköst, form og nákvæmni, að sú sýningatækni sem til þarf er aðeins á fárra færi. Þarna held ég að við séum komin aðeins út fyrir rammann. Eðlilegra væri að meta kynbótahrossin eins og flest hestfært fólk getur riðið þeim; í það minnsta eins og flestir atvinnumenn geta riðið þeim. Frábærar einkunnir hrossa, sem aðeins fáir geta sótt, segir miklu meira um knapana en hrossin. Þetta er heldur ekki gott fyrir reiðmennskuna til lengri tíma litið. Hross sem eru keyrð svona upp, jafnvel upp fyrir raunverulega getu, endast ekki lengi þannig og verða jafnvel aldrei jafngóð á eftir. Auðvitað staldrar maður við og spyr sjálfan sig hvort maður vilji taka þátt í þessum slag. En ef maður gerir það þá verður maður auðvitað að spila eftir þeim reglum sem eru í gangi.“

 

Góðir eiginleikar lifa

Þekktasta ræktunarhryssa þeirra feðga á Horni er Flauta frá Miðsitju. Þó fædd á Horni í eigu Ómars Antonssonar. Fleiri hryssur í ræktunarhópnum eru frá þekktum ræktendum fyrir norðan og sunnan. Eru dagar hornfirska hestsins taldir?

„Nei alls ekki,“ segir Ómar Ingi. „Ein okkar besta ræktunarhryssa er nánast alveg hornfirsk, Möl frá Horni. Hún er undan Rikku frá Fornustekkum og Sandi frá Horni, sem var undan Hrafni frá Holtsmúla og Árnaneshryssu. Rikka gaf þrjár fyrstu verðlauna hryssur og Möl og dætur hennar eru að gefa okkur viljuga og hágenga töltara, sem auðvelt er að selja. Það gafst ekki vel að skyldleikarækta hornfirsku hrossin, en góðu eiginleikarnir eru eftirsóknarverðir og þessar hryssur munu án efa lifa áfram í okkar ræktun,“ segir Ómar Ingi að lokum.

 

JENS EINARSSON

jens@hestabladid.is

 

Omar

Menu

Provided by water damage columbus